Ég er þakklát og stolt af því að vera sýnt það traust að leiða B-lista Framsóknar og annarra framfarasinna í komandi kosningum. Ég er hjúkrunarfræðingur að mennt og er nú að ljúka MA gráðu í opinberri stjórnsýslu. Ég er gift Sveini Kristjáni Rúnarssyni og eigum við þrjú uppkomin börn og eitt barnabarn.

Ég hef setið í meirihluta sveitarstjórnar Rangárþings eystra sl. 12 ár og nú sl. 2 ár sem sveitarstjóri. Ég hef því yfirgripsmikla reynslu á sviði sveitarstjórnarmála og opinberrar stjórnsýslu. Ég hef setið í og stýrt fjölmörgum nefndum á vegum sveitarfélagsins, auk þess að sitja í stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, varastjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og Lánasjóði sveitarfélaga.

Ég hef mikinn metnað fyrir öllu því sem ég tek að mér og hef átt minn þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað á sl. árum í Rangárþingi eystra og má þar nefna byggingu nýrrar álmu við Kirkjuhvol, viðbyggingu og stórbætta aðstöðu í íþróttamiðstöð með tækjasal, nýrri Krónuverslun var tryggt viðunandi húsnæði, skrifstofuhúsnæði byggt sem nú hýsir stjórnsýslu sveitarfélagsins auk fjölda annarra fyrirtækja. Ný íbúðahverfi hafa verið skipulögð og tækifæri til hvers kyns atvinnureksturs hafa skapast og síðast en ekki síst er nýr 10 deilda leikskóli í byggingu.

Ef litið er yfir stefnuskrá okkar, Framsóknar og annarra framfarasinna frá 2018 er ekki hægt annað en að vera stoltur af því hversu mikið hefur áunnist. Slíkur árangur næst ekki nema með skýrri stefnu og framúrskarandi samvinnu, bæði listans í heild sem og við stjórnendur og starfsmenn sveitarfélagsins sem gegna þar lykilhlutverki.

Ég hef ávallt talað fyrir ábyrgum rekstri og faglegri stjórnsýslu. Vönduð áætlanagerð og framkvæmdaáætlun eru forsenda þess að vel gangi. Þrátt fyrir afar krefjandi aðstæður undanfarin tvö ár skilum við nú jákvæðri rekstrarniðurstöðu um 59,8 milljónir og skuldahlutfall sveitarfélagsins er einungis 53,8%.  Sá ábyrgi rekstur gefur okkur svigrúm til að ráðast í  uppbyggingu innviða í takt við ört stækkandi sveitarfélag.

Starfsumhverfi sveitarstjórnarfólks er krefjandi og endurnýjun fulltrúa mikil með tilheyrandi tapi á þekkingu. Auk þess er lagaumhverfið sífellt að verða flóknara. Ég tel því reynslu mína og menntun mæta þeim kröfum sem nútíma sveitarstjórnarmaður og sveitarstjóri þarf að búa yfir.

Ég bið þig því kjósandi góður að tryggja mér áframhaldandi umboð sem sveitarstjóra Rangárþings eystra með því að setja X við B á kjördag.

Veljum framfarir með Framsókn, við látum verkin tala.

Lilja Einarsdóttir sveitarstjóri Rangárþings eystra