Lilja Einarsdóttir oddviti

listi - 01 - lilja - forsida

Lilja er fædd árið 1973 og er gift Sveini Kristjáni Rúnarssyni, yfirlögregluþjóni og sérfræðingi í öryggis- og neyðarstjórnun hjá Verkís og eiga þau 3 uppkomin börn og eitt barnabarn.

Lilja hefur gríðarlega víðtæka reynslu á sviði sveitarstjórnarmála og opinberrar stjórnsýslu. Hún hefur setið í meirihluta sveitarstjórnar Rangárþings eystra sl. 12 ár, þar af 6 ár sem oddviti og nú s.l. 2 ár sem sveitarstjóri. Lilja hefur setið í og stýrt fjölmörgum nefndum á vegum sveitarfélagsins, auk þess að sitja í stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Lánasjóði sveitarfélaga. Lilja situr nú einnig sem fulltrúi sambands íslenskra sveitarfélaga í tveimur mikilvægum starfshópum er fjalla um endurskipulagningu í málefnum aldraðra.

Lilja hefur á síðustu árum sótt sér víðtæka viðbótarmenntun, svo sem diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu og er nú að ljúka MA gráðu í sömu fræðum. Einnig hefur hún staðist hæfismat Fjármálaeftirlitsins um stjórn fjármálafyrirtækja.

Rafn Bergsson 2. sæti

Rafn Bergsson,bóndi og sveitarstarstjórnarfulltrúi er fæddur 1977. Hann er fæddur og uppalinn í Hólmahjáleigu í Austur-Landeyjum. Rafn er giftur Majken E Jörgensen og eiga þau 2 börn 15 og 18 ára.  Hann er menntaður bifvélavirki og vann við viðgerðir og járnsmíðar bæði í Reykjavík og á Hvolsvelli. Árið 2005 flytja þau að Hólmahjáleigu og hafa rekið þar kúabú síðan. Rafn er virkur í félagsmálum bænda og situr m.a í stjórn búgreinadeildar kúabænda innan BÍ. Helstu áhugamál Rafns eru samvera með fjölskyldu og vinum, ferðalög og málefni landbúnaðarins. Áherslumál Rafns eru traustur og góður rekstur sveitarfélagsins, málefni dreifbýlisins og atvinnu- og samgöngumál.

Bjarki Oddsson 3. sæti

Bjarki Oddsson er 28 ára lögreglu- og löggæslufræðingur. Hann hefur búið í Rangárþingi eystra frá fæðingu fyrir utan stutt stopp í Reykjavík þar sem hann stundaði nám. Bjarki lauk prófi af rafvirkjabraut ásamt því að hafa lokið stúdentsprófi frá FÁ. Bjarki lauk BA prófi í Lögreglu- og löggæslufræðum frá Háskólanum á Akureyri og hefur einnig lokið viðbótarnámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Bjarki starfar sem varðstjóri hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi þar sem hann hefur starfað frá árinu 2015. Bjarki hefur átt sæti á B-listanum í Rangárþingi eystra undanfarin 8 ár. Hann hefur setið í ýmsum nefndum og starfshópum á vegum sveitarfélagsins og meðal annars sinnt formennsku í heilsu- íþrótta og æskulýðsnefnd og samgöngu- og umferðarnefnd. Bjarki er í sambúð með Gyðu Björgvinsdóttur og eiga þau þrjá drengi á aldrinum 4-17 ára.

Helstu áherslumál Bjarka á vettvangi sveitarstjórnar eru meðal annars að byggja upp blómlegt samfélag með auknu framboði atvinnutækifæra fyrir fólk á öllum aldri. Málefni unga fólksins eru honum einnig hugleikin, allt frá að þeirra rödd heyrist að aðstöðu til náms og búsetu. Þá brennur hann einnig fyrir samgöngu- og umferðaröryggismálum og hefur hann viðamikla þekkingu á málaflokknum.   

Guri Hilstad Ólason 4. sæti

listi - 04 - guri - forsida

Guri er fædd 1971 og ólst upp í Bjugn kommune í Noregi. Hún útskrifaðist með cand.mag, gráðu frá Háskólanum í Þrándheimi árið 1995 þar sem hún lagði stund á nám í tónlist, mannfræði og stjórnmálafræði. Hún er einnig með meistaragráðu í kennarafræðum frá Háskólanum á Akureyri. Vorið 2021 útskrifaðist hún með viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og er núna í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu. Guri flutti til Íslands árið 2002 og bjó fyrst 3 ár í Stykkishólmi, síðan 2 ár í Reykjavík og flutti svo á Hvolsvöll ágúst 2007. Hún hefur mest megnis starfað við kennslu bæði í tónlistar- og grunnskóla en hefur einnig reynslu sem rekstrarstjóri menningarhúss í Odda í Noregi og leyfafulltrúi við Útlendingastofnun á Íslandi. Guri starfar núna sem kennari í Hvolsskóla. Guri var varamaður í sveitarstjórn Rangárþings eystra frá 2018-2020 og hefur setið sem sveitarstjórnarfulltrúi frá því í janúar 2020. Guri hefur gegnt formennsku jafnréttisnefndar á kjörtímabilinu og verið varaformaður menningarnefndar og einnig velferðarnefndar. Guri er gift Óla Jóni Ólasyni og eiga þau saman 2 stráka. Guri stundar hreyfingu og er einstaklega ánægð með þá möguleika sem sveitarfélagið okkar býður upp á til að stunda fjölbreytta hreyfingu og útivist. Öll málefni sveitarfélagsins eru henni hugleikin og er mikilvægt að veita sem bestu þjónustu til allra íbúa á öllum aldri.

Kolbrá Lóa Ágústsdóttir

5. sæti

Kolbrá Lóa Ágústsdóttir er 20 ára gömul alin upp í Vestra-Fíflholti í Landeyjum. Hún varð stúdent af opinni bóknámsbraut við Fjölbrautaskóla Suðurlands síðastliðið vor. Hún starfar við umönnun aldraðra á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli.

Sigurður Þór Þórhallsson

6. sæti

Sigurður Þór Þórhallsson er starfsmaður Íþróttamiðstöðvar Hvolsvallar. Hann er fæddur og uppalinn í Vík í Mýrdal. Tvítugur fór Sigurður til eyja á vertíð og kynntist þar eiginkonu sinni, Poulu Kristínu Buch hársnyrtimeistara og eiga þau fjórar dætur á aldrinum 19-35 ára og þrjú barnabörn. Þau bjuggu í 10 ár í Vestmannaeyjum og starfaði við Sigurður við sjómennsku þar ásamt því útskrifaðist með skipstjórnar og stýrimannsréttindi frá Stýrimannaskóla Vestmannaeyja. Árið 1997 keyptu Sigurður og Poula jörðina Önundarhorn undir austur Eyjafjöllum. Þar bjuggu þau og stunduðu búrekstur í 15 ár. Sigurður hefur búið í Hvolsvelli sl. 10 ár og starfað við Íþróttamiðstöðina. Helstu áhugamál Sigurðar eru útivist, hreyfing, kór og samvera með fjölskyldu og vinum. Sigurður hefur verið félagi í Karlakór Rangæinga og í Björgunarsveitinni Dagrenningu. Helstu áherslumál Sigurðar eru skipulags- atvinnu- landbúnaðar- íþrótta- og æskulýðsmál.

Stefán Friðrik Friðriksson

7. sæti

Stefán Friðrik er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki. Eftir framhaldsskóla fór Stefán í Kvikmyndaskóla Íslands. Stefán hefur starfað við við Kvikmyndagerð og í fjölmiðlum síðustu 15 árin, nú síðast hjá N4 fjölmiðli á Akureyri. Árið 2016 nam hann miðlun og almannatengsl við Háskólann á Bifröst og útskrifaðist þaðan með B.A. gráðu árið 2019. Í dag starfar hann sem verkefnisstjóri hjá Markaðsstofu Suðurlands. 

Stefán flutti ásamt fjölskyldu sinni á Hvolsvöll í júlí 2021. “Hér á Hvolsvelli er allt til alls fyrir mig og mína og hefur mikil uppbygging síðustu á svæðinu mikið að segja við svona stóra ákvörðun að flytja með alla fjölskylduna á milli landshluta”. Eiginkona Stefáns, Unnur Lilja, er sjúkraþjálfari og er borin og barnfæddur Rangæingur. Þau eiga þrjú börn, Hólmfríði Heklu 6 ára, Nökkva Dag 2 ára og Ólöfu Öglu 2 ára. 

Ingibjörg Marmundsdóttir

8. sæti

Ingibjörg Marmundsdóttir er fædd og uppalin á Svanavatni í Austur-Landeyjum. Gekk í Barnaskólann í Gunnarshólma en framhaldsnám eftir það var ekki jafn sjálfgefið og það er í dag. Hún tók síðar landspróf í þeim tilgangi að komast í ljósmæðranám, af því varð ekki en við tók 36 ára starf hjá Landsbankanum á Hvolsvelli. Ingibjörg venti sínu kvæði í kross og útskrifaðist sem félagsliði frá Borgarholtsskóla 2010. Starfaði á Kirkjuhvoli næstu 9 ár við félagsstörf og umönnun. Ingibjörg tók þátt í félagsstörfum hjá Umf. Dagsbrún, HSK, Krabbameinsfélaginu og hinum ýmsu nefndum. Hún er aldursforseti listans og eru málefni eldra fólks henni hugleikin.  Býr á Hvolsvelli. 

Ástvaldur Helgi Gylfason

9. sæti

Ástvaldur Helgi Gylfason er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og hefur búið á Hvolsvelli síðan haustið 2014. Hann er giftur Elísubeth Lind Ingólfsdóttur og eiga þau saman tvo drengi 3 og 7 ára og þriðja krílið er á leiðinni haustið 2022. 

Hann lauk B.A. í Hagfræði frá HÍ árið 2012, skírteini við Ævintýraleiðsögn frá Keili árið 2014, M.S. í forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu frá Bifröst árið 2021 og stundar nú kennaranám við HÍ. Ástvaldur Helgi byrjaði að starfa við leiðsögn árið 2008 og hefur hin síðari ár færst yfir í leiðbeina tilvonandi leiðsögumenn við Fjallamennskubrautina hjá Framhaldsskólanum í Austur – Skaftafellssýslu. Einnig er hann að þjálfa öflugar ungar dömur í knattspyrnu hjá KFR.  

Oddur Helgi Ólafsson

10. sæti

Oddur Helgi Ólafsson, framhaldsskólanemi er fæddur árið 2003 og bjó fyrst árin í Hafnarfirði. Þegar hann var fimm ára flutti hann ásamt fjölskyldu sinni á Hellu og árið 2013 fluttu þau á Hvolsvöll. Eftir grunnskóla flutti hann allt sitt hafurtask til Hafnarfjarðar aftur, í þetta skipti til ömmu og afa, og hóf nám við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og stefnir á útskrift þaðan vorið 2022 sem stúdent af leiklistarbraut. Oddur hefur verið formaður ungmennaráðs Rangárþings Eystra í tvö ár og hefur gegnt allskonar annarskonar nefndarstörfum svo sem Ungmennaráð Samfés, leikfélagið Verðandi í FG og fleira.

Lea Birna Lárusdóttir

11. sæti

Lea Birna Lárusdóttir, háskólanemi, er uppalin á Miðhúsum í Hvolhrepp. Hún er stúdent af félags- og hestafræðibraut við FSu og með BA próf í félagsfræði frá Háskóla Íslands. Í dag stundar hún nám í mannauðsstjórnun við sama skóla. Síðastliðin ár hefur hún starfað á Kirkjuhvoli samhliða námi.

Konráð Helgi Haraldsson

12. sæti

Konráð er bóndi, fæddur og uppalinn á Búðarhóli í Austur-Landeyjum. Eftir grunnskóla flutti Konráð til Reykjavíkur og hóf nám í bílamálun og starfaði í þeirri grein til 2012. Þá flutti hann til Víkur í Mýrdal og starfaði í vélaverktöku og steypuafgreiðslu. Árið 2014 flutti hann aftur í sveitarfélagið og var við bú foreldra sinna til 2018 á Búðarhóli. Hann bjó ásamt fjölskyldu sinni á Hvolsvelli um þriggja ára skeið, þá vaknaði gamli búmaðurinn aftur og festu þau kaup á kúabúi í desember 2020. Þau fluttu á Syðri-Hól undir Eyjafjöllum í febrúar 2021. Konráð er giftur Elsu Gehringer, kennara. Börn þeirra eru: Markús 14 ára, Andri 11 ára og Melkorka 8 ára.

Ágúst Jensson

13. sæti

Ágúst er bóndi á Butru í Fljótshlíð. Hann er kvæntur Oddnýju Steinu Valsdóttur frá Úthlíð Skaftártungu og eiga þau 3 börn 11-15 ára. Ágúst er búfræðingur frá Hvanneyri og vélsmiður. Landbúnaður og ýmis störf honum tengd hafa verið hans aðal atvinna en einnig hefur hann fengist við bæði járnsmíðar og trésmíðar. Áhugasviðið hans liggur aðallega í landbúnaði og landnýtingu, auk annarra atvinnumála. Ágúst hefur  þá skoðun að hvergi megi slaka á við að verja landbúnað í okkar héraði, sem hefur landgæði til að vera eitt öflugasta landbúnaðarhérað landsins. Framleiðsla matvæla er ekki aukaatriði heldur undirstöðu atvinnuvegur.

Ásta Brynjólfsdóttir

14. sæti

Ásta er sérkennari og þroskaþjálfi og alin upp í Stafholti í Borgarfirði en hefur búið á Hvolsvelli frá 1994. Eiginmaður hennar er Þorsteinn Jónsson garðyrkjuverktaki og eiga þau 3 börn á aldrinum 18-32. ára. Ásta starfar sem sérkennari við Hvolsskóla og hefur gert það síðan 2002. En fram að því starfaði hún á Leikskólanum Örk. Ásta hefur áður tekið þátt í sveitarstjórnarmálum á árunum 2006-2014 og hefur m.a. setið í félagsmála og barnaverndarnefnd og verið varamaður í sveitarstjórn.